Hjá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) er hægt að fá bækling um réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Ráðningarsamningur

Ríkisborgarar EES-ríkja sem vinna í tvo mánuði eða lengur fyrir sama atvinnurekanda eiga rétt á því að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur við þá. Í ráðningarsamningi á meðal annars að koma fram nafn, upplýsingar um atvinnurekanda, upplýsingar um hvar starfið sé unnið, laun, ráðningartíma, uppsagnarákvæði og aðild að lífeyrissjóði og stéttarfélagi.

Nánari upplýsingar eru að finna á vefsíðu Alþýðusambands Íslands (ASÍ), Vinnumálastofnunar og vefsíðum einstakra stéttarfélaga.

Mikilvægt að athuga
  • Að laun séu samkvæmt kjarasamningi.
  • Að vinnutími sé ekki lengri en lög og kjarasamningar leyfa.
  • Að orlof sé í samræmi við lög og kjarasamninga.
  • Að laun séu greidd vegna veikinda eða slysa.
  • Að launaseðill fylgi þegar laun eru greidd.
  • Að atvinnurekandi borgi skatt af launum.
  • Að atvinnurekandi greiði gjöld til lífeyrissjóðs og stéttarfélags.
Launaseðlar

Launaseðill er skrifleg staðfesting á fjárhæð launa og gjöldum sem atvinnurekandi hefur dregið af launum, svo sem skatt- og lífeyrissjóðsgreiðslur.

Bankareikningur

Flestir atvinnurekendur borga laun beint inn á bankareikning. Bankar gera mismunandi kröfur til þeirra sem sækja um að stofna bankareikning. Allir bankar gera þó kröfu um að umsækjandi sé með kennitölu og skilríki með mynd.

Lögbundnir frídagar

Samkvæmt flestum kjarasamningum eiga þeir sem eru á föstum launum að fá greidd laun fyrir lögbundna frídaga sem lenda á vinnudegi, líkt og um hefðbundinn vinnudag sé að ræða, þótt ekki sé unnið á þeim degi. Ekki er greitt fyrir fasta yfirvinnu á þessum dögum. Ef unnið er á frídegi er greitt sérstaklega fyrir það.

Lífeyrissjóður      

Allt launafólk á að borga í lífeyrissjóð. Það fær greitt úr lífeyrissjóði þegar það lýkur störfum vegna aldurs eða örorku. Atvinnurekanda ber að halda eftir ákveðnum hluta launa starfsmanns sem nefnist iðgjald, en það er sá hluti sem greiddur er til lífeyrissjóðs, ásamt mótframlagi frá atvinnurekandanum sjálfum.

Vandamál á vinnustað   

Ef upp koma vandamál í samskiptum á vinnustað er hægt að leita eftir upplýsingum og aðstoð hjá trúnaðarmönnum á vinnustað, stéttarfélagi eða Fjölmenningarsetri.

Stærstu stéttarfélögin eru Efling-stéttarfélag, VR og heildarsamtök stéttarfélaga eins og Bandalag háskólamanna (BHM) og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB).

Vinnuvernd

Vinnueftirlit ríkisins er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk Vinnueftirlitsins er að tryggja að gætt sé að öryggi starfsmanna, hafa eftirlit með vinnuaðstöðu þeirra og að ráðstafanir séu fyrir hendi til að koma í veg fyrir slys á vinnustað. Upplýsingar um Vinnueftirlitið ásamt upplýsingaefni um öryggi á vinnustað eru á vef Vinnueftirlitsins.

Mat á námi

Mat á menntun getur bætt stöðu fólks á vinnumarkaði, aukið möguleika á vinnu og hækkað laun.

Ýmis ráðuneyti hafa umsjón með námsmati og viðurkenningu á starfsréttindum erlendis frá. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð eru að finna á vef Menntagáttar.

Fjölmenningarsetur
Túlkun
Ísland
Stjórnsýsla
Fjármál
Atvinna
Fjölskylda
Húsnæði
Menntun
Heilsa
112
Bílar