Kerfiskennitala (kennitala á utangarðsskrá)

Almennt viðmið um útgáfu kennitölu á utangarðsskrá er að þörf er á einkvæmu auðkenni gagnvart hinu opinbera t.a.m. þegar nauðsynlegt er að geta aðgreint einstaklinga ennfremur svo unnt sé að skiptast á upplýsingum um einstaklinginn við aðrar stofnanir eða fyrirtæki, ennfremur ef lög, reglur eða reglugerðir kveða á um nauðsyn kennitölu. Kennitölum er almennt ekki úthlutað í þeim tilgangi að tryggja stofnunum eða fyrirtækjum einkvæmt auðkenni fyrir skráningu í eigin upplýsingakerfi.

Hver getur sótt um skráningu á utangarðsskrá og í hvaða tilgangi?

Einungis íslenskir lögaðilar geta sótt um kennitölu fyrir erlenda ríkisborgara. Umsóknir þurfa að berast rafrænt og með rafrænni auðkenningu. Með umsókninni staðfestir lögaðili að hann sækir um kennitöluna vegna sérstakar nauðsynjar sbr. ofangreint viðmið og til eigin notkunar.

Til dæmis:

  • Atvinnurekandi getur einungis sótt um kennitölu á grundvelli þess að hann sé laungreiðandi og þarf hann að uppfylla þau skilyrði að vera skráður á fyrirtækjaskrá.
  • Viðskipti. Umsóknaraðilar eru íslenskir lögaðilar með starfsleyfi til að starfa á íslenskum fjármálamarkaði á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi sem þurfa á kennitölu að halda vegna fjármálagerninga.
  • Stjórnarseta. Umsóknaraðilar eru íslenskir lögaðilar með starfsleyfi til að starfa á íslenskum fjármálamarkaði á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi. Stjórnarmenn skulu vera búsettir í aðildarríki eða ríki sem er aðili að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Framkvæmdastjóri skal vera búsettur í aðildarríki.
  • Námsstofnanir geta sótt um kennitölu vegna nema eða vegna starfsfólks.
  • Opinberir aðilar geta sótt um kennitölu ef nauðsyn þykir t.d. vegna bótagreiðslna o.s.frv.

Athugið að skráning á utangarðsskrá er eingöngu fyrir einstaklinga sem dvelja skemur en 3-6 mánuði á Íslandi eða hafa enga viðdvöl á hér á landi. Skráningin veitir engin réttindi á Íslandi. Ef erlendur ríkisborgari hyggst dvelja lengur en 3-6 mánuði á Íslandi og njóta réttinda hér á landi þá gildir eftirfarandi: EES/EFTA ríkisborgarar sem ætla að dvelja umfram þrjá mánuði nota eyðublað A-261 (íslenska) eða A-262 (enska).Norðurlandabúar sem ætla að dvelja umfram sex mánuði nota eyðublað A-257 eða A-258. Aðrir sækja skráningu til Útlendingastofnunar.

Umsóknarferli

Sótt er um skráningu á utangarðsskrá og þar með útgáfu á kerfiskennitölu rafrænt af vef Þjóðskrár Íslands.

Athugið að afrit af vegabréfi þess sem sótt er um kennitölu fyrir þarf að fylgja með umsókninni og vera í gildi á þeim tíma sem sótt er um.

Til þess að sækja um rafrænt þá þarf lögaðilinn að auðkenna sig á eftirfarandi hátt:

Íslykill/rafræn skilríki á kennitölu fyrirtækisins eða einstaklings með rekstur á eigin kennitölu og er skráður í fyrirtækjaskrá.

Íslykill/rafræn skilríki starfsmanns sem fyrirtæki (lögaðili) hefur veitt umboð til þess að sækja um kerfiskennitölu fyrir hönd þess. Til þess að veita starfsmanni umboð þá þarf að nota Íslykil/rafræn skilríki fyrirtækisins til þess að skrá sig inn á mínar síður á Ísland.is og skrá umboð á tiltekinn starfsmann. Leiðbeiningar vegna veitingu umboðs eru hér.

Um utangarðsskrá

Utangarðsskrá var tekin í notkun árið 1987 og gaf þáverandi forstjóri Hagstofu út reglur um skráningu og notkun kennitalna vegna þarfa hins opinbera. Tilgangur utangarðsskráningar var að tryggja opinberum aðilum einkvæmt númer til þess auðkenna einstaklinga sem ekki voru skráðir á þjóðskrá (einstaklingsskrá) og umsóknaraðilar opinberir aðilar á þeim eyðublöðum sem (þá) Hagstofan lét í té.  Tilgangur utangarðs kennitölunnar er enn hinn sami og umsóknarferlið óbreytt.

Fjölmenningarsetur
Túlkun
Ísland
Stjórnsýsla
Fjármál
Atvinna
Fjölskylda
Húsnæði
Menntun
Heilsa
112
Bílar