Saga

Frumkvæðið að stofnuninni kom upphaflega frá Vestfirðingum sjálfum, áhugahópi um menningarlega fjölbreytni á Vestfjörðum sem síðar hlaut nafnið Rætur. Þingmenn Vestfirðinga fylgdu hugmyndinni eftir og árið 2000 var samþykkt á Alþingi eftirfarandi þingsályktun:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að undirbúa stofnun miðstöðvar nýbúa á Vestfjörðum í samvinnu við sveitarstjórnir, Rauða kross Íslands og Svæðisvinnumiðlun Vestfjarða. Hlutverk miðstöðvarinnar verði að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi.“- 125. löggjafarþing 1999/2000.Þskj. 220

Fjölmenningarsetur var síðan formlega opnað 30. júlí 2001 af þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni.