Að leigja húsnæði

Íbúðir til leigu eru oftast auglýstar í dagblöðum. Fólki í húsnæðisleit, sem býr utan höfuðborgarsvæðisins, er ráðlagt að leita upplýsinga á skrifstofu síns sveitarfélags.

Húsaleigusamningur

Mikilvægt er að gera skriflegan húsaleigusamning[1] við leigusala þegar íbúð er tekin á leigu. Það þarf að kynna sér vel skilmála samningsins, svo sem reglur um tryggingu, uppsagnarfrest og fleira.

Eyðublöð fyrir húsaleigusamning á íslensku, ensku, spænsku og pólsku er hægt að nálgast á vefsíðu velferðarráðuneytisins (www.velferdarraduneyti.is) og Fjölmenningarseturs (www.mcc.is). Húsaleigusamninga er einnig hægt að nálgast á skrifstofum sveitarfélaga og hjá Íbúðalánasjóði (www.ils.is). 

Húsaleigubætur sveitarfélaga

Ef þú átt lögheimili á Íslandi getur þú sótt um húsaleigubætur[2] hjá félagsþjónustu sveitarfélaga. Hvort húsaleigubætur fáist greiddar og fjárhæð þeirra fer eftir leigufjárhæð, tekjum og fjölskyldustærð viðkomandi.

Áður en hægt er að sækja um húsaleigubætur verður að vera búið að þinglýsa[3] leigusamningi hjá sýslumanni sem gildir í að minnsta kosti sex mánuði.

Upplýsingar um húsaleigubætur má fá hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna og hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Ef búið er á gistiheimili, í atvinnuhúsnæði eða herbergi fást húsaleigubætur ekki greiddar.

Upplýsingar og reiknivél fyrir húsaleigubætur eru á vef velferðarráðuneytisins (www.velferdarraduneyti.is).

Rafmagn, heitt vatn, sími og netið

Þegar flutt er inn í íbúð er mikilvægt að láta lesa af mælum vegna rafmagns og hita svo leigjandi/kaupandi greiði einungis fyrir sína notkun.

Skrifstofur sveitarfélaga geta gefið upplýsingar um fyrirtæki sem selja rafmagn og heitt vatn í sveitarfélaginu.

Nokkur símafyrirtæki eru starfrækt á Íslandi og bjóða þau upp á mismunandi verð og þjónustu fyrir síma og nettengingu. Best er að leita beint til símafyrirtækjanna til að fá upplýsingar um þá þjónustu og það verð sem þau bjóða.


[1] Húsaleigusamningur er samningur sem leigjandi gerir við leigusala um leigufjárhæð og fleira.

[2] Húsaleigubætur eru styrkur sem fólk getur fengið frá sveitarfélagi eftir ákveðnum reglum til að greiða hluta af húsaleigu fyrir húsnæðið sem það býr í.

[3] Þinglýsing samninga miðar að því að skrá þá opinberlega til þess að tryggja og vernda réttindi þeirra sem samningana varða.


Sjá upplýsingar um leiguhúsnæði á Island.is

Fjölmenningarsetur
Túlkun
Ísland
Stjórnsýsla
Fjármál
Atvinna
Fjölskylda
Húsnæði
Menntun
Heilsa
112
Bílar